fimmtudagur, maí 29, 2008

Komin heim!

Langflottastur!
Komin heim og allt gengur vel. Losnaði við allt fyrr en ætlað var og þessi snilli fékk að fara fyrr heim en ella og ekkert kom út úr ræktunum þannig að sennilega var þetta bara gula og ekkert annað. Við erum mjög fegin að þetta var ekkert alvarlegt en upplifunin var samt erfið en ekkert hræðileg. Varð að skella inn einni góðri hérna af honum í essinu sínu, söddum og sælum.


Ingólfur Bjarki stóð sig eins og hetja þó hann væri stunginn og skoðaður í bak og fyrir. Fólkið á deildinni var frábært en það er voðalega gott að vera komin heim. :O) Gaurinn sefur og drekkur og gleður okkur þess á milli, ekkert smá flottur.


Kær kveðja, Stína.

miðvikudagur, maí 28, 2008

Ingólfur Bjarki
Hér er þessi dýrlegi drengur á ýmsum augnablikum þessa fyrstu daga sem hann er til.
Varð bara að henda inn myndum og monta mig. Allt gengur vel og hann braggast mjög vel hér undir góðu eftirliti og paranojaðri mömmu. :O) Hann er duglegur að drekka en er með sondu til að bæta við enn sem komið er þannig að hann jafni sig hraðar. Hann er ótrúlegur sjarmör og heillar alla hérna upp úr skónum þannig að mamman og pabbin eru að rifna úr monti yfir þessum frábæra strák. Myndirnar eru kannski út um allt, en alla vega til staðar. :O)

Bið að heilsa, er farin í háttinn og svo aðeins að kíkka á hann í nótt. Biðjum innilega að heilsa og njótið myndanna vel. Kv. Stína og strákarnir 4!
Kveðja, Stína.

Herra Ingólfur Bjarki

Hæ hæ allir saman og afsakið töfina.

Héðan er svo sem allt gott að frétta þannig séð nema það að við erum á barnadeild FSA í þessum töluðu þar sem litli drengurinn okkar er í rannsóknum. Það er ekkert alvarlegt sem hefur komið úr þeim, nema það að gulan hefur verið að stríða honum þannig að hann hefur ekki nennt að nærast nóg.

Hann, þessi gullfallega elska fæddist kl. hálf tvö þann 26.maí og var 54 cm og 16 merkur. Allt gekk vel og fæðingin tók nokkuð fljótt af. Hann er alveg ótrúlega fallegur, með mikið hár, fínlegur með six pack. Við erum sumsé búin að skíra hann hérna í kapellunni áður en við fórum heim og heitir hann Ingólfur Bjarki, sem er sameiginleg niðurstaða famelíunnar eftir milljón uppástungur síðustu mánuði. Strákarnir okkar komu með nafnið og okkur finnst það alveg jafn fallegt og hann er. Það hæfir honum ótrúlega vel.

Daginn eftir að við komum heim, í gærdag var hann kominn með hita, hættur að drekka, var óvær og var orðinn frekar gulur miðað við aldur. Hann fór því hingað í test sem öll komu vel út. M.A var tekinn vökvi úr mænu og fleira sem allt hefur komið fínt út. Vona bara að það haldi áfram. Hann var í ljósum í nótt og fékk sýklalyf strax í gær. Þetta hefur verið erfitt en gott að vera öruggur. Hann hefur staðið sig eins og hetja og ég er mjög sátt við það. Er sjálf ótrúlega hress, þetta hefur tekið á og sólarhringarnir tveir verið ansi annasamir og flóknir, en þetta er allt í áttina.

Mig langar að biðja ykkur að dreifa fréttum af drengnum, nafni og fleiru ykkar á milli þar sem ég varð inneignarlaus þegar ég var að reyna að sms-a liðið þannig að sumir fengu skilaboð en aðrir ekki. Það var engin goggunarröð, bara tilviljun. :O)

Svo stóð auðvitað til að skella inn myndum og láta fleiri vita en eins og sést að ofan hefur tíminn farið í annað. :o( Við munum vera hérna næstu tvo daga og ég reikna með að taka því síðan rólega heima og hitti ykkur svo þegar þetta allt er afstaðið. Skelli kannski inn myndum í kvöld ef tími er til.

Kær kveðja, Stína, Brói, Ingólfur Bjarki og stóru bræðurnir flottu.

sunnudagur, maí 25, 2008

Verkir!

Jamm, verkirnir komnir og vonandi eitthvað að gerast.
Ég læt vita um leið og eitthvað gerist en er ekki örugg að það sé komið að þessu, plús það að það gæti allt eins allt dottið niður bara.

ÉG er svo spennt!!!
:O)

41 vika+2 dagar!

Ekkert að gerast ennþá.
Býst ekki við að neitt gerist þá bara fyrr en á fimmtudagsmorgunn á milli 7 og 8, þegar belgurinn verður sprengdur. Læt annars heyra um leið ef eitthvað gerist fyrr. Er að verða brjáluð á biðinni sem endranær og vildi helst vera búin fyrir löngu. En þessi púki ætlar ekki að láta hafa lítið fyrir sér og er búinn að byggja upp þvílíka spennu. Algjör púki bara. :O)

Kv. Stína.

fimmtudagur, maí 22, 2008

22.maí runninn upp

Jamm og jæja, mín komin aftur frá doksanum.
Fór í mónítor, mat, sónar og svo hreyfði læknirinn aðeins við belgnum.
Þegar við komum upp á deild tók á móti okkur ljósan sem tók á móti Gústa hér um árið, alveg frábær manneskja. Ég fór í mónitor sem kom mjög vel út en þegar við síðan fórum í sónarinn sagði læknirinn að það hefði ekkert upp á sig að giska á stærðina, það væri ekki að marka það. En hún þreifaði mig og sagði að barnið væri ekki stórt...sem betur fer. Síðan hreyfði hún rækilega við belgnum og gaf mér tíma næsta fimmtudag í belgsprengingu ef ekkert hefur gerst.

Þegar við síðan vorum búin þar bauð ljósan mér nálastungur til að koma einhverju af stað sem ég auðvitað þáði. Ég lá því með nálar, eina í hvorum fæti, eina í hvorri hönd, þrjár eiginlega í rassinum (eða fyrir ifan hann í mjóbakinu) og svo eina á milli augnanna! Mjög fyndið og mjög spes upplifun sem ekki gleymist í bráð. En þá er víst ekkert annað að gera en að bíða, sem er reyndar einmitt það sem ég hef gert síðustu daga, vikur og mánuði. Kannski það gerist eitthvað í kvöld yfir æsingnum vegna forkeppninnar? Vonum það bara. Ef eitthvað gerist skelli ég því hér inn eða sendi ykkur skiló elskurnar. Hafið það síðan gott. ég veit að ég mun gera það, á að taka því rólega eftir nálastungurnar.

Kv. Turner kúla.

þriðjudagur, maí 20, 2008

20.maí

Jamm, enn ekkert að gerast og spennan í hámarki.
Fór í mæðró í dag og blóðþrýstingurinn eitthvað að stríða mér svo mér var sagt að chilla aðeins. Hef einmitt farið mér einum of geyst í öllum húsráðunum, hehehe. Búin að taka alþrif og allt en ekkert gerist þrátt fyrir það allt saman. Aumingja karlinn orðinn úrvinda þó við förum ekkert nánar út í það. En honum hlýtur að vera farið að líða eins og húsdýri eða eitthvað og þetta allt orðið partur af heimilisstörfunum. Ljósmóðirin ýti aftur við belgnum og fann ekki mikla breytingu frá því síðast. Kollurinn á ekki að vera stór samkvæmt áliti hennar en ég er orðin frekar stressuð um að barnið fari að verða eins og Siggi litli nýfæddur, tæp 5 kíló. Býð ekki alveg í þann pakka svo ég vona bara að allt fari að gerast og óska eftir sterkum hríðarstraumum frá ykkur krúttin mín.

Fer annars í mónítor, skoðun, vaxtarsónar og dagsetningu á gangsetningu á fimmtudaginn svo ég get skellt inn fréttum þá. Eitt er samt víst, eftir 9 daga verð ég í síðasta lagi gangsett. :O) Svo barnið fæðist vonandi alla vega um þar næstu helgi. Allt er ready nema barnið sjálft, hehe.

Heyrumst krútt og takk fyrir kveðjurnar.
Kv. Stænerinn.

sunnudagur, maí 18, 2008

18.maí

Hæ hæ, ekkert að gerast enn....vildi bara láta vita. :O)
Við bíðum bara og bíðum með allt klárt og þessi þrjóskupúki kemur víst bara þegar honum sýnist....eða þegar ég spring. :)

Kv. turner.

föstudagur, maí 16, 2008

40 vikur og ekkert barn!

Hæ hæ.

Í dag er 16.maí sem er settur dagur barnsins sem þýðir í raun að það ætti samkvæmt öllu að fæðast í dag. En það er ekkert að gerast, ekkert í gangi og barnið bara vill vera inni og láta bíða eftir sér.

Stanslausar símhringingar þar sem spurt er hvort það sé ekkert að gerast, hvort ég sé virkilega ekki með neina verki er ekki að hjálpa. :O) Það sem mér finnst þó fyndnast er þegar einhver spyr mig hvort ég sé ekki dottin eða sé ekki að fara að "detta". Þetta orð finnst mér alveg agalega asnalegt en pirringurinn er kannski að segja til sín.

Ég er bara svo leið á þessari leiðindabið fyrir utan það að ég fer bráðum að tútna út af þessum bjúg sem ég er nýkomin með. Ljósan ýtti aðeins við letipúkanum í síðustu skoðun en allt kom fyrir ekki, ekkert barn enn. Við Brói erum búin að vera dugleg í alls konar "leikfimi", göngutúrum og svoleiðis en ekkert gerist. Fórum í massagöngutúr um daginn og þegar við komum heim litu puttarnir á mér út eins og puttarnir á afa gamla, feitir, þykkir og stuttir, allur bjúgurinn kominn í þá. Hehe, ótrúlega fyndið. Þetta var samt ekkert voðalega þægilegt, gat ekki einu sinni hreyft þá.

Held kannski að ég sé bara allt of spennt og upptekin við að hugsa um að barnið sé að fara að koma og eigi að koma að það hættir bara við allt saman. :O)

Gaurarnir hafa lagt sitt af mörkum þessa síðustu viku meðgöngunnar sem hófst á því að Siggi veiktist á sunnudaginn síðasta og síðan fylgdi Gústi í kjölfarið núna á miðvikudaginn þannig að við Brói höfum verið bundin með annan fótinn heima en höfum þó farið út að labba og tekið bílinn okkar í gegn. Þeir sem hafa þegið far með mér einhvern tíman geta ímyndað sé að kominn hafi verið tími á það svosem. En þeir eru sumsé enn veikir gaurarnir og ég krosslegg bara puttana að fá ekki þetta ógeð sem þeir eru með ofan í yfirvofandi fæðingu. Vá, þetta er sennilega svartsýnasta blogg sem ég hef skellt hér inn í góðan tíma en þolinmæðin er á þrotum og aðstæður ekki alveg eins og best verður á kosið.

Ég hlakka þó alveg hrikalega til þegar eitthvað gerist og það er ekki oft sem maður liggur á bæn og biður um að verkirnir fari að byrja. :O) Fer bráðum að öskra eins og í Tal auglýsingunni (Viltu LÆKKA!) VILTU FÆÐAST!! :O)

Kveðja, Turner bjúgkúla með fleiru.