fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Þriggja mánaða gullmoli!



Jamm, hann Ingólfur Bjarki er víst orðinn þriggja mánaða og tveimur dögum betur.



Við fórum í skoðun í gær og sprautu sem gekk alveg hrikalega vel, drengurinn blikkaði ekki einu sinni. Hann var hvorki meira né minna en rétt tæp 7 kíló, þar af hafði hann sumsé þyngst um heilt kíló á þremur vikum. Ekki nóg með það heldur er hann að ná 63 eða 64 cm! Greinilegt hvað tíminn líður hratt. Hann kjáði framan í alla í skoðuninni nema hjúkkuna, var bara hræddur við hana og sendi henni skeifu og nokkur vel valin öskur, en það er nú allt í lagi að láta heyra í sér annað slagið. Hann heldur áfram að sofa á næturnar og ég krossa putta að það hætti ekki, er á meðan er. Svo er hann enn svona yndislega glaður og góður, farinn að grípa leikföng, skoða dót og reyna að snúa sér af baki á magann. Svo gæti ég trúað að það styttist í litlar tönnslur, alla vega er slefið meira en eðlilegt getur talist fyrir utan það að báðir hnefarnir á drengnum eru alla jafna uppi í honum. :)





Ég get eiginlega ekki útskýrt hversu mikið þessi draumaprins hefur gefið mér og ég er sannfærð um það að börn eru framtíðin og það eina rétta sem maður gerir í lífinu (ef maður getur) er ða eiga börn. Maður getur tekið allskonar rangar ákvarðanir og réttar svosem líka, en þegar uppi er staðið eru börnin okkar einu ákvarðanirnar sem alltaf fylgja okkur og gefa okkur meira en nokkur orð fá lýst. (Á meðan ég skrifaði þessar línur kúkaði Ingó á leikteppið sitt...bleyjulaus! Haha, frekar fyndið.

Framundan er svo fullur skóli eins og ég hef sagt fyrr, byrjar í raun á sunnudaginn, fótboltamót á laugardaginn á Húsavík svo það er nóg að gera.

Ég er búin að kaupa bækur og hef aðeins opnað þær en það er ótrúlega lítill tími egar svona lítil kríli fá svona mikla athygli. :O) Brói hefur ofaní allt verið að vinna mikið, er eiginlega á tvöföldum vöktum, dag- og næturvöktum þannig að pressan hefur verið á mér. En það er að fara að breytast. Er því með örlítinn kvíða-og tilhlökkunarhnút í maganum þessa dagana.

Skelli hér inn einni góðri af Sigga á leið í 80's party. Mamman sá um þennan kúl búning og þessa vel útfærðu greiðslu enda reynslunni ríkari eftir 80's þema HA og Sultuklúbbsins hér um árið, sælla minninga! Skemmst frá því að segja þá vann drengurinn til verðlauna, enda var hann með gloss, glimmer í hárinu og allt!


Kv. Turner.

föstudagur, ágúst 22, 2008

Hæ hæ-svipbrigði




Jæja gott fólk og verra. :O)



Héðan er allt gott að frétta, mikið að gera á þessum síðustu tímum áður en skólarnir byrja hjá okkur og af nógu að taka í tiltekt og frágangi ýmis konar. Það er ekki mjög margt sem kemst í verk með einn lítinn gutta á kreiki en samt ótrúlega miklu áorkað, enda er hann svo mikið rassgat, rosa þægur og góður.






Veit svosem ekki alveg hvað ég á að skrifa hérna, er á milli mjalta og messu alla daga núna, verið að safna upp í mjólkurkvóta fyrir skólann, enda þarf barnið að vera með brjóstið í fjarnámi þá daga sem ég verð í skólanum og því af nógu að taka. Hann stækkar með hverjum deginum, þetta líður alveg ótrúlega hratt og liggur við hraðar en með hina einhvern veginn, enda svosem hellingur að gera.






Ég er komin í átak, er orðin leið á að vera fituhlussa sem aldrei passar í fötin sem fást í búðunum, nenni ekki að hoppa af kæti ef ég finn fitubolluföt í minni stærð sem passa og kaupa þau síðan óháð því hvernig þau líta út. Vil bara geta keypt það sem mér finnst flott og beðið um mína stærð. Ég er því komin í tóma hollustu án einhverra öfga, enda með litla kútinn á brjósti. Vona bara að þetta gangi vel, er alla vega mjög langt frá því að springa núna. Langar ekkert í nammi eða gos.






Strákarnir voru á skólasetningu í morgun og eru að byrja í 3. og 5. bekk, ekkert smá orðnir stórir maður. Báðir komnir á 2. hæð í Giljaskóla, sem þeim yngri finnst voða sport. Þeir eru alltaf að kjassast í þeim stutta og eru mjög góðir við hann, afbrýðin bitnar meira á mér sem er svosem ágætt þannig séð. Líst bara vel á þessa skólabyrjun hjá þeim en þarf að fara að huga að minni núna. Róðurinn verður örugglega ansi þungur, er að fara í 15 eininga nám nú í haust og síðan aðrar 15 eftir áramót. Námið er í stjórnun en ég tek tvö valfög þessa önnina sem ég hlakka mikið til að taka. Hlakka mest til en er þó með smá hnút í maganum sennilega samviskutengdan vegna Ingólfs Bjarka. Held samt að þetta reddist allt saman. :O)

Æji, skrifa meira seinna, skelli hér inn nokkrum vel völdum af þeim þriðja, öðru nafni Ingó. Ansi flott svipbrigði sem hann er farinn að setja upp :O)













Við heyrumst síðan seinna. Kv. Turner.