mánudagur, janúar 08, 2007

Jejejeje... :-)

Jæja, allt líf virðist vera að komast í skorður í þessu pestarbæli. Bóndinn skreið í vinnu í dag, hefði eiginlega þurft að vera örlítið lengur heima bara hjá Stínu sinni. Gústa tókst að fá astma upp úr veikindunum sínum þannig að við erum víst farin að pústa hann aftur eins og í "gamla daga", en hann er bara hress með það og var ótrúlega svalur og flottur gaur þegar hann fór með pústið í skólann sjálfur. Hann fær líka að vera inni í dag og honum fannst það flottast af öllu. Mér fannst hann bara þurfa að vera inni eftir þetta allt saman, enda frekar löng veikindi í gangi.
Ég er að fara á fund á eftir vegna vettvangsnámsins á leikskóla. Það er orðið ljóst að ég mun fara á Hólmasól og leiðbeinandinn minn verður Arna, sem er alveg frábært. Að mínu mati ein færustu leikskólakennaranna, algjör eðall. :O) Hún sá um guttana mína fyrstu árin í þeirra skólagöngu. Þannig að ég er bara rosalega hamingjusöm og spennt, en pínu kvíðin samt. Það verður rosalega mikið að gera hjá mér og mínum næstu mánuði, ég verð í 21 einingu og þar af lokaritgerð sem mig langar að leysa eins vel af hendi og ég mögulega, mögulega get....og það er ekki auðvelt þegar maður er haldinn því sem sumir kalla fullkomnunaráráttu. En alla vega mússurnar mínar þá hlakka ég til að fara að sjá ykkur aftur og vona að ég nái að vera með ykkur í sem flestum tímum í janúar þó ég verði á Hólmasólinni líka.
Knús, Turner.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Gleðileg jól og gleðilegt nýtt ár elsku krúttin mín!

Hæ hæ, skemmst frá því að segja að ég átti yndisleg jól í faðmi fjölskyldunnar og allt var eins og best var á kosið. Brói var svo hjá okkur á milli jóla og nýárs og það var eflaust besta gjöfin. Ælupestarpúkinn heimsótti okkur og hafa allir heimilismenn lagst fyrir djöflinum ef undanskilin er húsbóndinn á heimilinu....enn sem komið er. Áramótin hefðu orðið frábær ef allt hefði farið eins og það átti að gera. Ég var búin að vera heillengi að plana matarboð enda mamma og pabbi að koma til okkar, sjávarréttasúpa í forrét með humri, rækjum og hörpudisk...mmmm, heppnaðist frábærlega. Einiberjakryddað lambalæri pottsoðið í hvítvíni, rauðvínssósa og sætar kartöflur og ferskt salat í aðalrétt. Allt gekk vel...eldri sonurinn nýskriðinn upp úr tveggja daga ælu og niður og sá yngri með hana!! Á meðan við nutum lystisemda matarins dundu ælu- og sullhljóðin yfir okkur og gestgjafinn....ég....hélt um enni lasna barnsins og afsakaði mig aumingjalega. Það versta við þetta allt saman var þó það að ég sjálf þurfti að leggjast fyrir á meðan á skaupinu stóð og þaðan átti ég ekki afturkvæmt. Ég var komin með ælupestina líka og lá því uppi í rúmi þegar nýja árið gekk í garð, ég skalf og hristist og vældi úr beinverkjum. Þvílík byrjun. Hálftíma seinna skilaði ég svo af mér öllum góða matnum...verður sennilega í síðasta skipti sem ég borða sjávarréttasúpu....gúlp. Þessi áramót voru því eiginlega eins sorgleg og ömurleg og hægt væri að hugsa sér, fyrir utan matinn og félagsskapinn, sem var góður. :O)
En kannski er það satt sem sagt er....Fall er fararheill . . . verð að minnsta kosti að vona það. :O)
Takk fyrir gamla árið elsku krúttin mín, ég vona að þið hafið það gott.
Kveðja, Turner.