þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Lífið heldur áfram

Jamm, ég vil byrja á því að afsaka þessi tæknilegu mistök sem urðu hér síðustu vikur....ég hef ekkert bloggað, vona að fólk veiti mér uppreisT æru og fyrirgefi mér.
Ég tók sumsé áskorun frá henni Heiðu gells og ákvað að blogga aðeins, veit samt ekkert hvað ég á að skrifa. Síðan ég skrifaði síðan hef ég lent í árekstri og skemmt bílinn hans pabba, skilað einu eða tveimur verkefnum, farið í leikskólaheimsókn, gert kvikmynd, valið ný gleraugu og keypt handa Gústa, keypt ný loftbóludekk undir bílinn, haldið áfram með handavinnuverkefnið mitt (á samt enn eftir að gera pappírinn úr skítnum fyrir forvitna), áttað mig á því að ég get allt sem ég vil, því ég lifði það af að halda fyrirlestur á ensku!! Jamm, þetta er svona nokkurn vegin það sem ég hef gert fyrir utan það að hugsa um bú, börn og Bróa. :O)
Ég er bara hress og hlakka til að klára öll verkefnin sem bíða svo ég geti farið að baka og skreyta, því krakkar það eru að koma jól!!!!
:O)
Kv. Turner

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Minningargreinin mín

Datt í hug að láta minn pistil fylgja hérna þar sem það hafa ekki allir aðgang að Mogganum.

Elsku hjartans amma mín. Það er svo ólýsanlega sárt að þú sért farin.
Ég varð þeirrar lukku aðnjótandi að fá að vera mikið hjá þér sem barn. Við gerðum allt saman, bökuðum brauð og kökur, gerðum morgunleikfimi, sungum og þú sagðir mér sögur. Síðast en ekki síst kenndirðu mér bænirnar og söngst þær oftar en ekki fyrir mig. Þú varst alltaf sú sem gast allt, mundir allt og vissir allt. Ég hlakkaði alltaf til að monta mig að eiga hana ömmu Lullu. Þú varst alveg ótrúleg amma í augum lítillar stelpu því þú fíflaðist mikið, varst mikill prakkari og þú kallaðir alltaf fram bros á vörum mínum. Þér fannst súkkulaðimolinn góður og varst algjör nautnaseggur og oftar en ekki speglaðist það í kaffiboðum hjá þér. Þegar þú bakaðir flatbrauð var sko engin lognmolla í kringum þig, þú söngst og trallaðir og varst oft með sígó í munnvikinu og dillaðir löppunum í takt við tónlistina. Þú varst mikið fyrir tónlist og byrjaðir snemma að spila og syngja fyrir aðra og það gerðirðu líka síðast þegar ég hitti þig. Þú söngst fyrir mig og mér leið eins og lítilli stelpu á ný. Heilsan og minnið hafði nefnilega gefið sig síðustu ár og það var voðalega sárt að sjá á eftir öllum sögunum sem þú mundir og bröndurunum. Síðast en ekki síst var erfitt að sjá þig ekki í þínu rétta umhverfi, í horninu inni í eldhúsi með sígó eða tvær í hönd hendandi mjólkurfernum í vaskann og oftar en ekki hittirðu. Þú varst alltaf svo vel til höfð og fín og varst í raun alveg jafn mikil dama og þú varst prakkari. Ég man eftir öllum varalitunum, kjólunum og höttunum sem ég fékk að máta sem lítil stelpa. Þannig er mín minning um þig og sú minning kallar fram ást, gleði og söknuð. Æji amma mín, þú varst svo ólýsanlega skrautlegur persónuleiki en það vita þeir sem þekktu þig best. Þú gafst mikið af þér, varst mikil barnagæla og við sem eftir stöndum erum svo miklu fátækari eftir að hafa misst þig og þitt skarð verður aldrei fyllt. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kveðja þig og mikið var gott að strjúka ennið þitt og kinn þegar við sáumst í hinsta sinn.

Elsku amma mín ég elska þig og mun aldrei gleyma þér. Ég vona að þú syngir og trallir mikið á himnum með alla þína nánustu þér við hlið og ég vona að þú vitir hvað okkur þótti öllum vænt um þig.

Þín ömmustelpa Kristín Sigurðardóttir.

Svo er hér eitt alveg hrikalega fallegt ljóð sem mig langar að láta fylgja með.

Á þriðjung ævi þinnar hef ég séð
hvað þróttur mikill býr í huga þínum
sem örugglega ýmsum þáttum réð
um allt það besta er lenti í höndum mínum.
Ef stillast vegir, veröld mín og geð
þá varkár hönd þín vakir yfir sýnum;
Þó fjarlægð sýnist fylla heima mína
er fjarska gott að finna um hlýju þína.

Hljóðlega fór heilmikið á blað
af heilræðum sem frá þér voru valin.
Þau standa mörg sem mér fannst best við hlað
á mörgum slíkum var ég eitt sinn alinn.
Ef lítil þokuslæða læðist að
sem leggur sig svo hlýlega um dalinn
þá gleymast hvorki gullkorn þín né mildi
þau gefa lífi mínu aukið gildi.

Hallgrímur Óskarsson1967-

Falleg athöfn

Jæja, þá er jarðarförin afstaðin og allir aðeins að skríða saman aftur. Kistulagningin var falleg og róleg. Séra Solveig er með svo ótrúlega róandi rödd og rólegt geð að það hjálpaði okkur hinum. Athöfnin fór fram í Möðruvallakirkju og var virkilega fín, Solveig var með góðan pistil um ömmu og í honum voru bæði broslegir hlutir og sorglegir. Kirkjukórinn söng í bljúgri bæn og hærra minn Guð til þín og það var virkilega vel heppnað hjá þeim. Ég man ekki eftir kórnum svona góðum áður. Amma kenndi mér einmitt í bljúgri bæn og við sungum það oft saman svo mér þótti vænt um að það skyldi fá að hljóma. Rósin fékk að hljóma í einsöng Óskars Péturssonar og líka nú andar suðrið. Hið klassíska blessuð sértu sveitin mín fékk líka að njóta sín og þetta var sennilega alveg eins og amma hefði viljað hafa það. Fullt af söng, grátri og hlátri og alveg stappað af fólki. Amma var nú alveg hrikalega félagslynd kona og hafði örugglega gaman að þessu öllu saman. Það voru ofsalega fallegar minningargreinar um hana ömmu og allar fönguðu þær persónuleika hennar vel. Amma mín er semsagt farin frá okkur endanlega en mér finnst huggun í því að ég geti þó heimsótt leiðið hennar, því hin amma og afi eru jörðuð í Hafnarfirði. :O)
Ég segi bara enn og aftur amma mín, hvíldu í friði, það er örugglega miklu fjörugra á himnum eftir að þú fórst þangað.
:O)

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Hvíldu í friði elsku amma mín



Með tárin í augunum segi ég amma mín að ég elska þig og þín verður sárt saknað....

Þú varst sannarlega engill í dulargervi..

Þín Kristín.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Að eiga ekki ömmu!

Já, ég verð bara að segja það að lífið er ekki alltaf gott. Amma mín hún elsku Lulla (frá Hjalteyri) er orðin mjög veik og það lítur út fyrir að það styttist í að við fáum ekki lengur að njóta nærveru hennar hér á jörðinni. :(

Amma var alltaf sú sem mundi allt, gat allt og vissi allt! Og ef hún vissi það ekki kom hún samt með svar. Amma söng, fíflaðist, prumpaði og kallaði alltaf fram bros á vörum mínum. En það var á meðan hún hafði heilsuna. Síðustu árin og reyndar kannski aðeins fyrr fór hún að hætta að muna, þekkja og vita hver hún var í raun. Elsku amma mín talaði alltaf um að fara heim en í raun vissi hún ekki hvert heim var. Það er búið að vera erfitt að horfa upp á þetta ferli allt saman og ekki síst þar sem ég eyddi mestri barnæsku minni í hennar umsjá. Þá bökuðum við flatbrauð, kökur og gerðum graut. Ég fékk að skoða fötin hennar, leika mér með hattana hennar og það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom til hennar var að setja litlu styttuna á snyrtiborðinu hennar saman. Hún hafði nefnilega brotnað einu sinni og ekki hafði neinn komið því í verk að laga hana. Mikið þótti mér vænt um að geta gert þetta fyrir hana ömmu mína. En nú get ég ekkert gert fyrir hana, hún liggur bara brotin, lítil og aum uppi í rúmi og bíður örlaga sinna.
:O(
Ég get ekki líst því hvað mér þótti sárt í gær þegar ég fór til hennar, að sjá hana liggja þarna eina og enginn hjá henni. Enginn hélt í höndina á henni og enginn söng fyrir hana, en það var það sem hún gerði alltaf fyrir mig! Ég strauk henni og hún horfði á mig, ég kyssti hana og strauk, hélt í höndina á henni og talaði við hana. Hún reyndi svo greinilega að bregðast við en það eina sem hún gat gert var að raula lítið lag sem hljómaði líkt og bernskusöngur. Hún elsku amma mín er því sennilega að yfirgefa þennan heim og það er alveg jafn sárt og í gær þegar ég fór í raun til að kveðja hana. Ég þoli ekki þá staðreynd að ég hef þá misst 2 ömmur á 15 mánuðum!! Það er heldur ekki sanngjarnt að ömmur mínar hafi farið á svona langan, erfiðan hátt. Þá hefur sennilega verið illskárra að hann afi minn fékk að losna undan kvöð síns sjúkdóms fljótt og án sársauka árið 2000, degi eftir að ég ól yngri son minn.
Þegar hún amma mín kveður þennan heim á ég enga ömmu og ömmur mínar voru og eru sko engar smá manneskjur, ég er ekki viss að ég hafi fyrr eða muni seinna fyrirhitta aðrar eins manneskjur. Hann afi minn var líka svona stór persóna, ég sakna ömmu og afa og mun sakna þessarar ömmu minnar alveg hrikalega sárt líka.
En ef það er eitthvað sem maður lærir af þessari reynslu þá er það það að lifa lífinu á meðan við höfum tækifæri til og að bera virðingu fyrir ÖLLU lífi óháð í hvaða mynd eða ástandi það er.
En á meðan hún amma er hér á jörðinni vona ég að hún haldi áfram að syngja og ég vona að þegar hún ákveður að fara til allra á himnum muni hún geta sungið, dansað og fíflast eins og hún gerði á meðan hún lifði.
Kv. Stína sem er einhvernvegin sár.....