föstudagur, september 19, 2008

Leikir drengja í dag :O)

Hæ hæ.
Ja, ef maður er ekki fyrirmynd þá veit ég ekki hvað!

Synir mínir hafa eytt síðustu þremur dögum í alveg ótrúlegan leik sem er svo flottur ða ég varð að skrifa um hann hérna. Þeir eru búnir að leika og leika sér saman rifrildalaust síðustu kvöld og vera þvílíkt góðir, hlæjandi saman og voða kátir. Eitt kvöldið komst ég svo að því um hvað leikurinn snérist. Gústi sat í sófanum með tvo Dracco karla (litlir plastkarlar) og ég spyr hvort þeir séu bara hætti í leiknum og farnir að glápa á imbann, svörin stóðu ekki á sér.

Jú, sjáðu til mamma mín, þetta er ég og þetta er hún X(stelpa sem Gústi er skotin í og má ekki nefna á nafn), við erum hérna (lágu saman Dracco karlarnir) að búa til börn og það tekur tíma! Siggi sat í öðrum stól og bara horfði á, kannski ekki eins tíðindamikið í leiknum hjá honum, konan hans ekki sjáanleg (ég fæ reyndar ekki að vita nafnið á henni). Ég reyni að hlægja ekki og sýni mikinn áhuga, leyfi þessu aðeins að ganga og spyr svo hvort það sé komið barn og svörin standa ekki á sér! Ohhh mamma, núna er hún sko að fæða barnið og VIÐ erum með hríðar! Hahaha, ég sprakk næstum úr hlátri yfir þvi að hann væri að endurupplifa líf mitt síðustu mánuðina á þennan hátt.

Svo eru þeir búnir að byggja hús úr domino kubbum og kapla kubbum sem allir eiga heima saman í. Eitt kvöldið kíkti ég svo á dásemdina og viti menn, kominn fullur kassi af börnum! Gústi átti svona sirka 30 og Siggi ein 6. Ég spyr Gústa hvernig hann ætli eiginlega að ala önn fyrir öllum þessum börnum og hann segir sposkur á svipinn að hann ætli sko að verða símasölumaður, vera heima allan daginn og vinna við að hringja heim til fólks og selja þeim drasl. Ég gef lítið fyrir það en segi sisvona að hann yrði nú að vera Ronaldinho eða eitthvað til að eiga nægan pening fyrir mat handa þeim. Svo fer hann að sofa.

Um morguninn heyri ég læti í herberginu hans og hann er þá að saxa úr barnahópnum, velur flotta Draccoa og setur hina í tösku. Svo kemur hann fram og ég spyr hvað hafi orðið um börnin hans og það stendur ekki á svörum, hann sendi þau á svona heimili og lét ættleiða þau, svona ættleiðingarheimili. Það er alltaf fullt af fólki sem vill ættleiða börn segir hann mér og bendir á að hann hafi sko ekki efni á öllum þessum börnum! Haha, flottir þessir strákar.

Sá yngsti er flottur, algjört rassgat sem bara gefur og gefur. Ein erfið nótt að baki enn sem komið er og ég hélt hreinlega að hann væri með í eyrunum eða eitthvað en svo reyndist ekki vera sem betur fer. Var reyndar með slímhimnubólgu eða eitthvað sem hefði getað orsakað verkina eða kveisu eða eitthvað, alla vega er þetta búið, stóð yfir í sirka hálfan sólarhring, haha. Furðulegt.

Við gáfum honum graut í gær að vel hugsuðu máli, ég ætlaði að reyna að geyma það þangað til hann yrði 8 mánaða eins og Gústi og hafa hann bara á brjósti fram að þeim tíma en þegar hann var farinn að breyta nætursvefninum góða og ég búin að reyna í viku að gefa honum meiri rjóma en undanrennu (sem reyndar virkaði á dagpirringinn), gafst ég upp og grautur var það heillin. Ég stóð því yfir skál í gær með teskeiðarfylli af graut og mjólkaði mig til að blanda graut handa þeim stutta sem er reyndar ekkert svo stuttur lengur. Honum fannst hann aldeilis góður, smjattaði á honum og ljómaði eins og sól í heiði. Loksins viðurkenndur í samfélagi manna, ekki lengur brjóstabarn heldur líka grautarhaus. :O) Voðalega glaður sveif hann í nóttina og svaf hana alla! Vei, vei, vei, þvílík orka sem ég hef í dag. Æðislegt, vona að þetta hafi verið málið.

Annars er hann farinn að spjalla heilmikið, hreyfir munninn eins og hann sé að flytja ræðu og hljóðin allt frá skræku herópi til muldurs í gömlum karli eða eitthvað, rosaleg flóra af hljóðum sem hann gefur frá sér. En jæja.....

Kv. Turner sem ætlar að svæfa einn þreyttan og LÆRA! :O)

mánudagur, september 15, 2008

29 baby!

Úff já, það er ekki hægt að neita því að það fór hrollur um mig þegar ég vaknaði á laugardagsmorguninn og fattaði að ég ætti afmæli! Árin....29 talsins, ekki alveg að fatta þetta. Að maður sé að verða þrítugur á næsta ári er bara lygilegt. Finnst ég ekkert hafa elst og finnst einmitt frekar eins og ég hafi aldrei áður verið eins hraust og sterk og núna. Hrörnunin ekki farin að segja til sín ennþá, hehe.



Dagurinn var yndislegur, við fórum í sund í Glerárlaug, heimsókn til tengdó og svo gaf ég körlunum mínum Brynju ís. Kvöldið var svo ekki af verri endanum, Bróa steiktar mjúkar svínalundir, rauðvínssósa, smjörsteiktir sveppir og grænmeti! Mmmmmmmmmm. Um kvöldið kíkkaði mamma ( pabbi lasinn :( ) svo í heimsókn ásamt Fúsa bróður sínum og Bubbu konunni hans. Við buðum upp á heimabakaða franska súkkulaðiköku með heslihnetum og pekan, bárum fram vanilluís, jarðarber og rjóma með henni og það tókst agalega vel. Var bara mjög kósí kvöld og fullkominn endir á góðum degi. Guttarnir mínir fengu að vaka lengi og kúrðu svo uppí hjá okkur Bróa. Það var þröngt á þingi en voða notalegt.


Fékk nokkrar kveðjur sem ég þakka hér með fyrir.
Leyfisbréfið mitt var að detta inn um lúguna.

Hér með er ég formlega orðin grunnskólakennari!

Mússí múss, Turner.

miðvikudagur, september 10, 2008

Gamla tuggan um hvað tíminn líði hratt

Jamm, það er merkilegt hvað tíminn getur flogið hjá þegar mikið er að gera.

Ingó stækkar þvílíkt á hverjum degi og hann er sko búinn að mannast alveg þvílíkt mikið. Síðasta vika fór í lotu í skólanum hjá mér eða réttara sagt "okkur" mæðginum og allt gekk vel. Ég sveiflast svolítið á milli þess að vera hrikalega ánægð með að hafa drifið mig í að sjá hrikalega eftir því. Allir græða svo sem þegar upp er staðið en ég verð að játa að í byrjun var þetta ansi yfirþyrmandi en ekkert er óyfirstíganlegt. Hef bara ákveðið að taka mottó landsliðsins bókstaflega og gera mitt besta. :O)

Stundum hugsa ég til baka og sé hversu mikið hefur gerst í lífi mínu síðustu 10 ár og vá hvað margt er breytt síðan þá. Stundum finnst mér ég vera alveg hrikalega gömul en þá næstu finnst mér ég bara enn vera 17 ára. Er bara ákveðin í að njóta áranna framundan hvað sem tautar og raular og hversu mikið lesefni sem ég á eftir læt ég það ekki trufla mig. Ég er svo heppin að eiga gott fólk að sem hefur hjálpað mér í gegnum þetta allt saman og er enn að bjóða hjálp sína. Brói er algjör hetja og gerir mikið hérna heima, leggur sitt alveg til hliðar fyrir mig en mér líður reyndar skringilega að vera eins og einhver prinsessa á bauninni en kannski er það allt í lagi, námið skipti okkur jú öll miklu máli. Það er bara svo gott að finna svona samhug og stuðning. Ingó hefur verið rosa duglegur, fyrstu dagarnir í pössuninni voru ekki auðveldir og ýmis skemmtiatriði stóðu honum til boða en hann vildi bara túttuna hennar mömmu. Svo komst hann fljótt á lagið og allt gekk miklu betur. En jæja, best að fara að tala við litla krúttið, hann liggur hér á gólfinu og rífst við þvottadallinn, haha. Þvílík hljóð í einum gaur, haha.




Síðustu dagar hafa beisikklí farið í að hugsa um Ingó, eyða hverri vökustund í lestur og skóla og svo er eldað og gengið frá á kvöldin og án gríns.....sofnað um 9 leytið! Ótrúlegt hvað maður er þreyttur alltaf hreint, enda þvílíkt mikið að gera. En svona vildi maður víst hafa þetta. :O)


Skelli hér inn nokkrum vel völdum af litla feita mömmustráknum fyrir ykkur að dást að. :O) Hann er að verða rosa gaur eins og sést, farinn að gera kúlur og heldur að hann sé voða klár að halda á snuddunni sinni og leika sér eins og stóru strákarnir.

Kv. Stína bína.