þriðjudagur, apríl 22, 2008

Skrítnir tímar! :O)

Hæ hæ allir.

Í dag fór mín og gekk frá fæðingarorlofsumsókninni, á bara eftir að henda henni í póst. Þegar ég fór upp í skóla á okkar yndislegu office í kennaradeild fékk ég þær upplýsingar að ég væri skráð á haustmisserið í framhaldsnám! Vá, ég eiginlega bjóst ekki við svari svona strax en tek því þannig að ég sé komin inn, enda sé ég þetta líka á Stefaníunni. Maginn á mér eiginlega snérist bara við og blendnar tilfinningar fóru um hugann. Þarna stóð ég, himinlifandi yfir að vera að klára en á sama tíma gladdist ég hrikalega yfir því að hafa komist inn. :O) Þetta verður sennilega svolítið svoleiðis, gaman en erfitt en þá er bara að bíta á jaxlinn.

Bumban stækkar alltaf meira og meira og sígur í takt við það. Hlýtur að fara að koma að þessu öllu saman, barnið búið að vera djúpskorðað í nokkrar vikur núna. Barnið elskar James Blunt og tekur alltaf þvílíka kippinn þegar það heyrir í honum. Hefði auðvitað átt að fara á tónleikana 12. júní, en það bíður betri tíma.

Í nótt dreymdi mig ótrúlega sérstakan draum, ég eignaðist barnið en það kom út í sigurkufli og þegar var skorið á hann kom þetta yndislega fallega stelpuandlit í ljós, hún var svo falleg með sinn kolsvarta hárlubba en hún var með skarð í vör. Mjög sérstakur draumur en vá hvað hún var yndisleg.

Strákarnir mínir eru að verða svo stórir, mér finnst ég vera orðin gömul. Siggi er að verða 10 ára og Gústi "litli" 8 ára! Siggi er farinn að fara í sturtu á morgnanna áður en hann fer í skólann og er farinn að pæla svolítið í útlitinu. Gústi er alltaf við sama heygarðshornið, einstakur og sterkur karakter sem mun plumma sig fínt í framtíðinni. Siggi minn örlítið viðkvæmari og auðsærður, hinn svarar sko alltaf fyrir sig. Þeir eru alveg ótrúlegir strákar, ég er rosalega stolt af þeim. Þeir fóru í lestrarpróf og Siggi er með 377 atkv. og Gústi 292, ekki slæmur árangur það! Fótbolti á hug þeirra allan og auðvitað barnið líka. Þá hlakkar mikið til óg elska þessa flottu sumardaga, eru í bolta allan sólarhringinn ef svo liggur við, enda orðnir þvílíkt sólbrúnir og enn sætari!

Ég hlakka líka rosalega mikið til sumarsins sem mun að miklu leyti fara í labbitúra og að kynnast þessu nýja kríli og aðlaga fjölskylduna að breyttum aðstæðum. Svo er bara skóli í ágúst-september! :O)




Myndirnar í þessu bloggi útskýra sig vonandi sjálfar, hehe. :O)

Bið annars að heilsa í bili, Turner hvalur.

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Næstum 36 vikur!





Hæ hæ krúttin mín (og þið hin sem rákust á bloggið mitt).
Lífið gengur sinn hæga vanagang á meðan maður bíður eftir að litla krúttið láti sjá sig. Merkilegt hvað manni getur leiðst að hanga svona heima, vanur því að vera alltaf á fullu í skólanum í um eða yfir 20 einingum en núna veit maður varla hvað maður á af sér að gera. Sumt sem ég geri er ekki hollt, ég er til að mynda nánast búin að horfa á ÖLL fæðingarmyndbönd á youtube, lesa allar bækur á amtsinu um fæðingar og í raun ofurskipuleggja allt í kringum fæðinguna sem er kannski ekkert svo sniðugt þegar upp er staðið. Ég er komin með alla stóru hlutina sem mig vantaði og ég hef vægast sagt keypt það á flottum prís. Ég er komin með nýlegan Graco stól með base, nýtt hvítbæsað barnarúm með flottri astmadýnu, vagn með sér kerrustykki, hokus pokus stól, skiptiborð með baði og hillum og það allt á 30þús. svo ég er mjög sátt við sjálfa mig.

Nú er ég komin tæpar 36 vikur svo það er rétt rúmur mánuður í væntanlegan fæðingardag, en ég er mjög skotin í þeirri hugmynd að eiga þann 11. og er eiginlega búin að secreta það. 11. er mæðradagurinn og um helgi svo mér finnst hann upplagður. En jamm, allt gengur fínt í kringum óléttuna, nema tíminn vill varla haggast. Ég hef bara þyngst um 6 kíló eins og er og er ánægð með þá tilbreytingu. Grindin er að stríða mér, en ég lifi sko alveg af, hef flotta hjálp hérna heima og allir gaurarnir mínir eru að standa sig eins og hetjur. :O)

Ég sótti um framhaldsnám í menntunarfræðum í gær, brautin sem ég valdi er kennslufræði-hlutverk umsjónarkennara og til vara tók ég lestrarfræðin. Ég stefni svo á að taka þetta í rólegheitum fram á næsta vor að öllu óbreyttu og hlakka mikið til. Ég reyndar kvíði því að sama skapi, það er alveg nóg að reka heimili og vera með lítið kríli þó maður sé ekki líka í námi á meistarastigi en mér finnst þetta vera rétt nýting á tíma þar sem þetta gefur mér færi á að taka smá nám með. Vona bara að maður brilleri. Vona að sjálfsögðu líka að ég komist inn. :0)

Í dag er 31 dagur þar til krílið ætti að láta sjá sig og 31 skóladagur eftir hjá strákunum og 60 dagar í útskriftina mína! Ég get varla beðið. Þangað til læt ég mér bara leiðast. Skelli hér inn fallegum (not) bumbumyndum af mér (vegna áskoranna) og tek það fram að slitið er ekki nýtt, það er ekki alveg svona rautt eins og ég hafi verið klóruð af villidýri. Þetta er sumsé gamla, fallega slitið mitt frá fyrri barneignum. Njótið vel! :þ

Get ekkert fært til hérna í myndunum, skil ekkert í þessum ósköpum. Kannski koma þær bara út um allt! En bið alla vega að heilsa í bili.

Kv. Turner kúla.