Datt í hug að láta minn pistil fylgja hérna þar sem það hafa ekki allir aðgang að Mogganum.
Elsku hjartans amma mín. Það er svo ólýsanlega sárt að þú sért farin.
Ég varð þeirrar lukku aðnjótandi að fá að vera mikið hjá þér sem barn. Við gerðum allt saman, bökuðum brauð og kökur, gerðum morgunleikfimi, sungum og þú sagðir mér sögur. Síðast en ekki síst kenndirðu mér bænirnar og söngst þær oftar en ekki fyrir mig. Þú varst alltaf sú sem gast allt, mundir allt og vissir allt. Ég hlakkaði alltaf til að monta mig að eiga hana ömmu Lullu. Þú varst alveg ótrúleg amma í augum lítillar stelpu því þú fíflaðist mikið, varst mikill prakkari og þú kallaðir alltaf fram bros á vörum mínum. Þér fannst súkkulaðimolinn góður og varst algjör nautnaseggur og oftar en ekki speglaðist það í kaffiboðum hjá þér. Þegar þú bakaðir flatbrauð var sko engin lognmolla í kringum þig, þú söngst og trallaðir og varst oft með sígó í munnvikinu og dillaðir löppunum í takt við tónlistina. Þú varst mikið fyrir tónlist og byrjaðir snemma að spila og syngja fyrir aðra og það gerðirðu líka síðast þegar ég hitti þig. Þú söngst fyrir mig og mér leið eins og lítilli stelpu á ný. Heilsan og minnið hafði nefnilega gefið sig síðustu ár og það var voðalega sárt að sjá á eftir öllum sögunum sem þú mundir og bröndurunum. Síðast en ekki síst var erfitt að sjá þig ekki í þínu rétta umhverfi, í horninu inni í eldhúsi með sígó eða tvær í hönd hendandi mjólkurfernum í vaskann og oftar en ekki hittirðu. Þú varst alltaf svo vel til höfð og fín og varst í raun alveg jafn mikil dama og þú varst prakkari. Ég man eftir öllum varalitunum, kjólunum og höttunum sem ég fékk að máta sem lítil stelpa. Þannig er mín minning um þig og sú minning kallar fram ást, gleði og söknuð. Æji amma mín, þú varst svo ólýsanlega skrautlegur persónuleiki en það vita þeir sem þekktu þig best. Þú gafst mikið af þér, varst mikil barnagæla og við sem eftir stöndum erum svo miklu fátækari eftir að hafa misst þig og þitt skarð verður aldrei fyllt. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kveðja þig og mikið var gott að strjúka ennið þitt og kinn þegar við sáumst í hinsta sinn.
Elsku amma mín ég elska þig og mun aldrei gleyma þér. Ég vona að þú syngir og trallir mikið á himnum með alla þína nánustu þér við hlið og ég vona að þú vitir hvað okkur þótti öllum vænt um þig.
Þín ömmustelpa Kristín Sigurðardóttir.
Svo er hér eitt alveg hrikalega fallegt ljóð sem mig langar að láta fylgja með.
Á þriðjung ævi þinnar hef ég séð
hvað þróttur mikill býr í huga þínum
sem örugglega ýmsum þáttum réð
um allt það besta er lenti í höndum mínum.
Ef stillast vegir, veröld mín og geð
þá varkár hönd þín vakir yfir sýnum;
Þó fjarlægð sýnist fylla heima mína
er fjarska gott að finna um hlýju þína.
Hljóðlega fór heilmikið á blað
af heilræðum sem frá þér voru valin.
Þau standa mörg sem mér fannst best við hlað
á mörgum slíkum var ég eitt sinn alinn.
Ef lítil þokuslæða læðist að
sem leggur sig svo hlýlega um dalinn
þá gleymast hvorki gullkorn þín né mildi
þau gefa lífi mínu aukið gildi.
Hallgrímur Óskarsson1967-
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Mjög falleg minningargreinin hjá þér Stína mín.
Love you :*
Já þetta er falleg grein, en farðu nú að skrifa eitthvað annað! Það er staðreynd að þegar fólk er í verkefnastússi er ekkert eins skemmtilegt og að blogga :)
Skrifa ummæli