miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Að eiga ekki ömmu!

Já, ég verð bara að segja það að lífið er ekki alltaf gott. Amma mín hún elsku Lulla (frá Hjalteyri) er orðin mjög veik og það lítur út fyrir að það styttist í að við fáum ekki lengur að njóta nærveru hennar hér á jörðinni. :(

Amma var alltaf sú sem mundi allt, gat allt og vissi allt! Og ef hún vissi það ekki kom hún samt með svar. Amma söng, fíflaðist, prumpaði og kallaði alltaf fram bros á vörum mínum. En það var á meðan hún hafði heilsuna. Síðustu árin og reyndar kannski aðeins fyrr fór hún að hætta að muna, þekkja og vita hver hún var í raun. Elsku amma mín talaði alltaf um að fara heim en í raun vissi hún ekki hvert heim var. Það er búið að vera erfitt að horfa upp á þetta ferli allt saman og ekki síst þar sem ég eyddi mestri barnæsku minni í hennar umsjá. Þá bökuðum við flatbrauð, kökur og gerðum graut. Ég fékk að skoða fötin hennar, leika mér með hattana hennar og það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom til hennar var að setja litlu styttuna á snyrtiborðinu hennar saman. Hún hafði nefnilega brotnað einu sinni og ekki hafði neinn komið því í verk að laga hana. Mikið þótti mér vænt um að geta gert þetta fyrir hana ömmu mína. En nú get ég ekkert gert fyrir hana, hún liggur bara brotin, lítil og aum uppi í rúmi og bíður örlaga sinna.
:O(
Ég get ekki líst því hvað mér þótti sárt í gær þegar ég fór til hennar, að sjá hana liggja þarna eina og enginn hjá henni. Enginn hélt í höndina á henni og enginn söng fyrir hana, en það var það sem hún gerði alltaf fyrir mig! Ég strauk henni og hún horfði á mig, ég kyssti hana og strauk, hélt í höndina á henni og talaði við hana. Hún reyndi svo greinilega að bregðast við en það eina sem hún gat gert var að raula lítið lag sem hljómaði líkt og bernskusöngur. Hún elsku amma mín er því sennilega að yfirgefa þennan heim og það er alveg jafn sárt og í gær þegar ég fór í raun til að kveðja hana. Ég þoli ekki þá staðreynd að ég hef þá misst 2 ömmur á 15 mánuðum!! Það er heldur ekki sanngjarnt að ömmur mínar hafi farið á svona langan, erfiðan hátt. Þá hefur sennilega verið illskárra að hann afi minn fékk að losna undan kvöð síns sjúkdóms fljótt og án sársauka árið 2000, degi eftir að ég ól yngri son minn.
Þegar hún amma mín kveður þennan heim á ég enga ömmu og ömmur mínar voru og eru sko engar smá manneskjur, ég er ekki viss að ég hafi fyrr eða muni seinna fyrirhitta aðrar eins manneskjur. Hann afi minn var líka svona stór persóna, ég sakna ömmu og afa og mun sakna þessarar ömmu minnar alveg hrikalega sárt líka.
En ef það er eitthvað sem maður lærir af þessari reynslu þá er það það að lifa lífinu á meðan við höfum tækifæri til og að bera virðingu fyrir ÖLLU lífi óháð í hvaða mynd eða ástandi það er.
En á meðan hún amma er hér á jörðinni vona ég að hún haldi áfram að syngja og ég vona að þegar hún ákveður að fara til allra á himnum muni hún geta sungið, dansað og fíflast eins og hún gerði á meðan hún lifði.
Kv. Stína sem er einhvernvegin sár.....

2 ummæli:

Sigga Gunna sagði...

Elsku besta Stína mín... Ég get svo vel skilið hvernig þér líður. Sú hugsun að bráðlega fái hún loksins hvíldina sem hún verðskuldar verður einhvern vegin allt öðruvísi þegar kemur að stóru stundinni. Þá er maður nefninleg bara ekki alveg tilbúin til að sleppa... Það eina sem hægt er að reyna að hugga sig við eru allar góðu stundirnar sem við höfum átt með þeim og hvað þær hafa gert líf okkar betra en annars hefði verið... Ömmur eru nefninlega mestu gimmsteinar á jörðu... Farðu vel með þig elsku besta vinkona...

Aðalheiður sagði...

Njóttu meðan er! Þú veist hvað ég meina :)