Já, það er ekki laust við að lítið móðurhjarta slái svolítið hratt þessa dagana eða jafnvel missi úr slög! Þannig er mál með vexti að litla barnið mitt er byrjað í grunnskóla. Það gengur mjög vel og allt það en í dag er hann í vistun í fyrsta skiptið og sennilega er það ekki hann heldur ég sem þarf að venjast því! Ég er bara svo vön að hafa börnin mín innan seilingar, sér í lagi eftir sumarið. Ég leiddi einmitt hugann að því þegar ég fylgdi þeim yngri í skólann fyrsta skóladaginn að ég væri að fylgja honum áleiðis sinn fyrsta dag af kannski 20 ára skólagöngu!! Það er spennandi hugsun og allt það en þegar við höfum þessi litlu kríli í höndunum finnst okkur oft eins og tíminn standi í stað þangað til við allt í einu stöndum frammi fyrir því að þau eru að stækka. Við hins vegar stöndum stundum í stað! :O)
Horfum á eftir þeim og höldum að þau geti ekki lifað án okkar þó því sé einmitt öfugt farið...við getum ekki lifað án þeirra.
Ég er líka sest á skólabekk og það er alveg yndislegt. Ég er á leik-og grunnskólabraut og er í 2 leikskólafræðiáföngum, annar snýst að mestu um stefnur, strauma, leik- og leikþroska barna og hinn um foreldrasamstarf. Spennandi! Svo ákvað ég líka að skrá mig í margmiðlun hjá Eygló Björns, sem er eflaust skemmtilegur og ekki síst lærdómsmikill áfangi. Enska er eitthvað sem mig langaði alltaf að taka og tók núna og svo tók ég líka spennandi handmenntaáfanga þar sem við lærum meðal annars að búa til leikbrúður og fleira sem ætti að nýtast beint í kennslu, hvort sem er í leikskóla eða yngsta stigi grunnskóla og jafnvel lengur!
Ég er á lífi og líður alveg yndislega, en það er þó örlítið hjarta innan í mér sem skelfur pínu og það er móðurhjartað milda. :O)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
fyndið að þessi börn sem voru smákrakkar fyrir 2 árum eru komnir í skóla!!!
Skrifa ummæli