Elsku hjartans amma mín, hvernig færir maður tilfinningar sínar í orð á svona stundu?
Ég trúi varla að manneskja eins og þú sért farin frá okkur.
Aldrei á lífsleiðinni mun nokkur kona jafnast á við þig.
Þú varst einstök mannvera, hjartahlý, góð, hugrökk, dugleg og falleg.
Ég man þegar þið systurnar stiguð dans í Friðrikshúsi og hlóguð og töluðuð um gamla tíma. Þú ljómaðir í gegnum ævina, hafðir einhverja glóð í augum og varst með svo góða nærveru.
Þú hefur átt einstaka ævi sem ekki hefur gengið áfallalaus fyrir sig. Þú hefur mætt öllum áföllum með einstakri hugprýði og jafnaðargeði og alltaf komist yfir allt. Í þetta eina sinn gastu ekki barist lengur og fékkst að lokum langþráða hvíld.
Mikið held ég að það verði miklir fagnaðarfundir á himnum þegar þið afi hittist á ný.
Þá geta Stebbi og Pétur frændi strítt þér og sagt þér brandara. Siggi getur sagt þér sögur og borðað með þér rækjusalat og þið Olla getið stigið dansinn á ný.
Vonandi hefurðu það gott núna amma mín.
Þú varst alltaf svo falleg, vel til höfð og ég man alltaf hvað ég leit upp til þín og var stolt af því að þú værir hún amma mín. Brosið þitt, krullurnar og hláturinn hljómar í huga mínum á meðan ég hugsa um allar sögurnar sem þú sagðir mér, um það hvað gerist ef börn borða ekki matinn sinn, frá því þegar þú varst lítil og fékkst epli í jólagjöf, sagan um litlu huldustelpuna í móanum, sögur af þér og afa í útlöndum, þegar hann brann á ilinni.
Flestum sögum fylgdi þó einhverskonar siðaboðskapur um þakklæti, virðingu, hjálpsemi eða einhverja aðra dyggð sem komst svo vel til skila úr þínum munni.
Þú varst alla tíð svo stolt af börnunum þínum og fjölskyldum þeirra og lagðir þig fram um að fylgjast með hverjum einasta. Hringdir á öllum afmælum, varst alltaf með okkur á bakvið eyrað og lagðir þig fram við að hafa samband, halda okkur saman og láta okkur virða fjölskyldutengslin.
Þú ólst upp yndisleg börn sem alla sína tíð munu búa að því forskoti sem þú, með allri þinni ástúð og umhyggju, ólst þau upp með og undirbjóst þannig fyrir lífið.
Ást ykkar afa á hvort öðru var ólýsanleg, svo mikil á stundum að ég man sem lítil stelpa eftir því að hugsa að svona ást vildi ég sjálf upplifa. Þið voruð bæði tvö öllum fyrirmynd. Það er sárt fyrir okkur sem eftir sitjum að halda áfram án þín og einhvern vegin er ekkert sem undirbýr okkur hér á jörðinni undir svona mikinn missi.
Þó við höfum verið búnar að kveðja hvor aðra þá vildi ég óska þess að ég hefði fengið eitt faðmlag enn, eitt bros, einn koss, en svo verður ekki um sinn.
Það kemur enginn í þinn stað og það mun aldrei neinn jafnast á við þig elsku amma mín, mundu það.
Ég mun alltaf elska þig og minnast þín.
Þín ömmustelpa, Kristín.
Nú farin ertu úr þessum heimi,
farin til frelsarans er náðaði þig.
Þú sofnaðir hljótt í hinn djúpa svefn,
en hjarta mitt syrgir þig amma mín.
Ég gleymi þér aldrei svo góð við mig,
ég sakna þín mjög og elska þig enn.
Tíminn líður og græðir öll sár,
og minning um þig er geymd hjá mér.
Nú ertu komin í himnaborg,
með afa minn þér við hlið.
Þó mikil sé mín hjarta sorg,
þá fannstu þinn eilífan frið.
Þú vakir yfir svo mikið er víst,
og verður alltaf amma mín best.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Elsku Stína mín, ég vona að þú hafir það nú gott og það er alltaf huggun að vita af því að nú líður ömmu þinni eflaust betur þar sem hún hefur fengið hvíldina góðu. Farðu nú bara vel með þig. Kveðja Sigga Gunna
Skrifa ummæli