þriðjudagur, september 25, 2007

Gaman gaman

Jamm, ég hef skrifað hér inn að minnsta kosti 2 færslur sem ekki hafa skilað sér og ég hef orðið frekar pirruð í þau skipti og heitið sjálfri mér því að hætta að blogga....en það nær ekki lengra en það.
Nú styttist í æfingakennsluna og hjartslátturinn aðeins farinn að aukast, í orðsins fyllstu merkingu, en spennan er líka til staðar. Ég er samt alveg lost í því hvað ég á að kenna þessar 30 einstaklingskennslustundir en í sameiginlega kvótanum kennum við nöfnur saman í 4. bekk. Mjög skemmtilegur bekkur og það verður gaman að vinna með þeim.
Ég er nýkomin að sunnan úr hressu fertugsafmæli hjá Strúnu frænku og ég skemmti mér vel og slappaði af í ferðinni, tók í spil, hitti ástvini og keypti mér ullarkápu sem ég elska. :O)
En ég ætla að hafa þetta stutt í þetta sinn og krossa fingur að þessi færsla skili sér. :O)

Allar tillögur og góð ráð vegna æfingakennslunnar vel þegið! :)
Mússí múss, Turner.

mánudagur, ágúst 13, 2007

Jæja góðir hálsar...og verri :O)


Jamm, bara aðeins að láta vita af mér.
Ég er enn á lífi og vel það, endurnærð eftir frábært sumar sem hefur verið viðburðarríkt, vel nýtt, rómantískt og bara frábært á allan hátt.
Verð samt að segja að ég er meira en tilbúin að hefja haustið og klára námið mitt.
Nú er það loksins komið í ljós eftir endanlegan úrskurð Guðmundar Heiðars að bréf matsnefndar skuli standa og þá á ég bara eftir þessa einu önn og um áramót verð ég grunnskólakennari, en í janúar til mars fer ég svo í vettvangsnám, 10 einingar og útskrifast sem leik- OG grunnskólakennari í júní á næsta ári. Ég hlakka innilega til að klára þetta, en er örlítið stressuð að takast á við vettvangsnámið og æfingakennsluna, minnimáttarkenndin alltaf að stríða manni. Ég stefni hinsvegar á að standa mig úber vel og umfram allt reyna að njóta lærdómsríks tíma.
Skólinn byrjar sumsé á morgun og svo er það Oddak á mánudag giska ég á.


En mússurnar mínar, ég læt vita af mér oftar hér á síðunni í vetur en skrifin í sumar gefa til kynna! :O)
Óver end át, Turner.

föstudagur, maí 18, 2007

Eurovision fegurð

Já góðir hálsar, ætla að hafa þetta stutt í dag þar sem ég á deit eftir hálftíma við Golla þar sem hann mun tjá mér hvað í andskotanum kemur út úr þessu leikskóladæmi öllu saman.

Mússí múss, Turner.

fimmtudagur, maí 10, 2007

Besta lagið í Euro í ár

Já, merkilegt að ég skuli aftur, annað árið í röð falla fyrir lagi frá Úkraínu. Í fyrra dýrkaði ég og dáði lagið frá Tinu Karol, en í ár er það þessi yndislegi flytjandi sem ég er dáleidd af. Algjörlega frábært að gera grín að poppinu í dag á þennan hátt....og ef þetta er ekki grín er þetta jafnvel enn frábærara, lagið grípur og maður fær það á heilann. Síðast en ekki síst má geta þess að lagið er með þeim síðustu á svið. Go Ukraine!!!

þriðjudagur, maí 08, 2007

X-Hvað

Hæ aftur gott fólk.
Fyrir þá sem eru hikandi hvað þeir eigi að kjósa langaði mig að setja inn slóðina http://xhvad.bifrost.is/ en þar er að finna ótrúlega góða vél sem áætlar eftir þínum skoðunum hvaða flokki þínar hugmyndir um mörg stefnumál passa við.

Fyrir þá sem kæra sig um fékk ég til dæmis:

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 0%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 20%
Stuðningur við Samfylkinguna: 37.5%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 62.5%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 31%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 50%

Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs!
Þeir sem þekkja mig vita hvort þetta sé í samræmi við það sem ég hafði hugsað mér að kjósa. :O)

Eurovision

Ég skil ekki alveg þetta youtube post video dæmi. Var búin að reyna að posta myndbandi hér inn af laginu sem ég held með þetta árið, en eitthvað virðist hafa klikkað þó youtube lofaði mér að það birtist á síðunni von bráðar hefur ekkert gerst. En hvað um það, nú þegar prófin og lokaritgerðin eru frá, er tími til að gera allt og ekki leiðist mér það.
Löndin sem ég held með eru (tek fram að ég hef ekki heyrt mikið af lögunum sem eru í aðalkepnninni, utan eins):
Úkraína fyrst og fremst-æðislegt lag!
Georgia-líkt ray of light með Madonnu, en hvað með það?
Moldavía-kraftur, sterk og reið kona, flott lag
Svíþjóð-The Ark er með lag, mjög spes og maður fær það á heilann
Kýpur-er ekkert spes við fyrstu hlustun en vinnur á
Svo er eitt lag með ófríðri, skrítinni konu sem lítur karlmannlega út og verður skrítin um augun þegar hún syngur. Er með dökkt, stutt hár, lítil...man ekki landið, en lagið er fínt. (Er víst Serbía)
Svo verðiði að fletta Bellarus upp á youtube því söngvarinn er alveg eins og karlkyns Paris Hilton!! HAHAHA Og þið sem hafið séð leikritið Best í heimi ættuð að tékka á Bretlandi...
Hlakka svo rosalega til Júópartýsins, klippingar og fatakaupa sem karlinn hvatti mig í.
Mússí múss.
Kv. Stína.

fimmtudagur, mars 22, 2007

Þetta er bara fyndið myndband

Jamm, ég fann þetta líka flotta norska myndband með þessari hæfileikaríku söngkonu. Hún er aðeins að stela hugmyndum Pink, en hvaða máli skiptir það? Gott grín, eða ég vona alla vega að þetta sé grín! Haha.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Þetta finnst mér fyndið

http://www.youtube.com/watch?v=eT8Amdt4QHs&mode=related&search=

Þetta minnir mig mjög mikið á litla frænda minn Karlsson, hann er með svona svipaðar hreyfingar og er alveg ótrúlegur orkubolti. Fær mig bara til að sakna hans meira... :(
En myndbandið.....algjör snilld.

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Ég er á lífi

Halló góðir hálsar og verri. Ég vildi bara blogga til að láta vita að ég er á lífi...ég er í vettvangsnámi á leikskólanum Hólmasól og hef það bara ansi fínt þó annir séu mjög miklar. En meira um það seinna, vildi bara gleðja ykkur með þeim fréttum að ég væri lífs en ekki liðin. :O)
Kveðja, Turner.

mánudagur, janúar 08, 2007

Jejejeje... :-)

Jæja, allt líf virðist vera að komast í skorður í þessu pestarbæli. Bóndinn skreið í vinnu í dag, hefði eiginlega þurft að vera örlítið lengur heima bara hjá Stínu sinni. Gústa tókst að fá astma upp úr veikindunum sínum þannig að við erum víst farin að pústa hann aftur eins og í "gamla daga", en hann er bara hress með það og var ótrúlega svalur og flottur gaur þegar hann fór með pústið í skólann sjálfur. Hann fær líka að vera inni í dag og honum fannst það flottast af öllu. Mér fannst hann bara þurfa að vera inni eftir þetta allt saman, enda frekar löng veikindi í gangi.
Ég er að fara á fund á eftir vegna vettvangsnámsins á leikskóla. Það er orðið ljóst að ég mun fara á Hólmasól og leiðbeinandinn minn verður Arna, sem er alveg frábært. Að mínu mati ein færustu leikskólakennaranna, algjör eðall. :O) Hún sá um guttana mína fyrstu árin í þeirra skólagöngu. Þannig að ég er bara rosalega hamingjusöm og spennt, en pínu kvíðin samt. Það verður rosalega mikið að gera hjá mér og mínum næstu mánuði, ég verð í 21 einingu og þar af lokaritgerð sem mig langar að leysa eins vel af hendi og ég mögulega, mögulega get....og það er ekki auðvelt þegar maður er haldinn því sem sumir kalla fullkomnunaráráttu. En alla vega mússurnar mínar þá hlakka ég til að fara að sjá ykkur aftur og vona að ég nái að vera með ykkur í sem flestum tímum í janúar þó ég verði á Hólmasólinni líka.
Knús, Turner.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Gleðileg jól og gleðilegt nýtt ár elsku krúttin mín!

Hæ hæ, skemmst frá því að segja að ég átti yndisleg jól í faðmi fjölskyldunnar og allt var eins og best var á kosið. Brói var svo hjá okkur á milli jóla og nýárs og það var eflaust besta gjöfin. Ælupestarpúkinn heimsótti okkur og hafa allir heimilismenn lagst fyrir djöflinum ef undanskilin er húsbóndinn á heimilinu....enn sem komið er. Áramótin hefðu orðið frábær ef allt hefði farið eins og það átti að gera. Ég var búin að vera heillengi að plana matarboð enda mamma og pabbi að koma til okkar, sjávarréttasúpa í forrét með humri, rækjum og hörpudisk...mmmm, heppnaðist frábærlega. Einiberjakryddað lambalæri pottsoðið í hvítvíni, rauðvínssósa og sætar kartöflur og ferskt salat í aðalrétt. Allt gekk vel...eldri sonurinn nýskriðinn upp úr tveggja daga ælu og niður og sá yngri með hana!! Á meðan við nutum lystisemda matarins dundu ælu- og sullhljóðin yfir okkur og gestgjafinn....ég....hélt um enni lasna barnsins og afsakaði mig aumingjalega. Það versta við þetta allt saman var þó það að ég sjálf þurfti að leggjast fyrir á meðan á skaupinu stóð og þaðan átti ég ekki afturkvæmt. Ég var komin með ælupestina líka og lá því uppi í rúmi þegar nýja árið gekk í garð, ég skalf og hristist og vældi úr beinverkjum. Þvílík byrjun. Hálftíma seinna skilaði ég svo af mér öllum góða matnum...verður sennilega í síðasta skipti sem ég borða sjávarréttasúpu....gúlp. Þessi áramót voru því eiginlega eins sorgleg og ömurleg og hægt væri að hugsa sér, fyrir utan matinn og félagsskapinn, sem var góður. :O)
En kannski er það satt sem sagt er....Fall er fararheill . . . verð að minnsta kosti að vona það. :O)
Takk fyrir gamla árið elsku krúttin mín, ég vona að þið hafið það gott.
Kveðja, Turner.

mánudagur, desember 18, 2006

Jólin koma

Já, það styttist svo sannarlega í jólin. Allt að verða klárt hér á bæ þannig séð.
Strákar fara í frí á miðvikudag og þá fer þetta allt að koma. :O)
Svo er skemmst frá því að segja að ég er loksins búin að skila handmenntinni af mér þannig að ég er í raun löglega komin í jólafrí. :)
Hef voðalega lítið annað að segja, ætla bara að skella hérna inn nokkrum myndum af mér í djúpum skít. :)
Eigið góðar stundir.
Kv. Turner.


miðvikudagur, desember 13, 2006

Hrossaskítur soðinn

Jamm, þá er helmingi pappírsgerðar lokið, hestaskítur var fengin gefins uppi í Breiðholti og skellt í pott, á hellu úti á svölum ásamt nokkrum uppþvottavélatöflum og soðinn í nokkrar klst. Ekkert smá hressandi að hræra í svona pottrétti! Jammí jamm, hahaha.
Afsakið bara ilminn sem lagðist yfir bæinn í gær. Svo á að klára að búa til pappírinn í dag og ég er ekkert smá spennt að sjá útkomuna. :-)
Býst við að senda ykkur svo jólakort úr þessum pappír, hahahahaha.
Nei nei smá djók, en pappírinn...hann er alvöru og vegna áskoranna mun ég setja inn nokkrar myndir af þessu skítlega ferli hér inn á næstunni.
Mússí múss, það styttist í jólin.
Kv. Turner.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Jólin nálgast óðfluga

Já góðir gestir.
Skemmst frá því að segja að ég er lifandi. Ég er búin í þessu eina prófi mínu og það gekk mjög vel þrátt fyrir mikið stress, ógleði og ælu sem virðist vera orðinn almennur fyrirboði prófs hjá mér. Ég byrjaði prófdaginn á því að kúgast og kúgast og Brói sagðist alveg sjá að ég væri að fara í próf. Ég slapp þó við blóðnasir í þetta sinn.
Síðustu dagar hafa farið í að reyna að gera eitthvað á heimilinu, taka til, skreyta, hugsa um börn og dýr og bara almennan jólaundirbúning. Í morgun fór mikill tími að horfa á allar rásirnar sem við Brói keyptum (var reyndar nokkuð frítt í bili) og ég get ekki annað sagt en að ég hafi haft gaman af. Horfði á BBC food og lærði að gera Paellu, krabbakokteil og salatdressingu, en eini gallinn er sá að ég veit að ég mun aldrei nota skeljar, krabba eða svona risarækjur í skel í mat.
:-s
Gústi er búinn að vera veikur síðustu daga og Siggi er orðinn skólaleiður, sem er nú saga til næsta bæjar. En það sýnir það bara að þetta er alltof langur tími að mínu mati, ég meina, krakkarnir byrja í ágúst!

En jæja, áfram með smjörið.
Ég hef eytt heilmiklum tíma í að þæfa, er búin að gera alveg helling af fallegum hlutum, þetta kostar ekki neitt og er ekkert smá gaman að gera, mæli með þessu. Svo er ég búin að vera að vinna í vinnubók fyrir handmenntina sem styttist í að ég þurfi að skila. Svo lítur allt út fyrir það að skítapappír verði að veruleika í dag ef allt fer fram sem horfir!! Hlakka bara til jólanna og alls þess sem þeim fylgir og ég hlakka líka til vettvangsnámsins sem ég fer í í janúar.
Mússí múss, vona að þið hafið það gott.
Turner.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Lífið heldur áfram

Jamm, ég vil byrja á því að afsaka þessi tæknilegu mistök sem urðu hér síðustu vikur....ég hef ekkert bloggað, vona að fólk veiti mér uppreisT æru og fyrirgefi mér.
Ég tók sumsé áskorun frá henni Heiðu gells og ákvað að blogga aðeins, veit samt ekkert hvað ég á að skrifa. Síðan ég skrifaði síðan hef ég lent í árekstri og skemmt bílinn hans pabba, skilað einu eða tveimur verkefnum, farið í leikskólaheimsókn, gert kvikmynd, valið ný gleraugu og keypt handa Gústa, keypt ný loftbóludekk undir bílinn, haldið áfram með handavinnuverkefnið mitt (á samt enn eftir að gera pappírinn úr skítnum fyrir forvitna), áttað mig á því að ég get allt sem ég vil, því ég lifði það af að halda fyrirlestur á ensku!! Jamm, þetta er svona nokkurn vegin það sem ég hef gert fyrir utan það að hugsa um bú, börn og Bróa. :O)
Ég er bara hress og hlakka til að klára öll verkefnin sem bíða svo ég geti farið að baka og skreyta, því krakkar það eru að koma jól!!!!
:O)
Kv. Turner

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Minningargreinin mín

Datt í hug að láta minn pistil fylgja hérna þar sem það hafa ekki allir aðgang að Mogganum.

Elsku hjartans amma mín. Það er svo ólýsanlega sárt að þú sért farin.
Ég varð þeirrar lukku aðnjótandi að fá að vera mikið hjá þér sem barn. Við gerðum allt saman, bökuðum brauð og kökur, gerðum morgunleikfimi, sungum og þú sagðir mér sögur. Síðast en ekki síst kenndirðu mér bænirnar og söngst þær oftar en ekki fyrir mig. Þú varst alltaf sú sem gast allt, mundir allt og vissir allt. Ég hlakkaði alltaf til að monta mig að eiga hana ömmu Lullu. Þú varst alveg ótrúleg amma í augum lítillar stelpu því þú fíflaðist mikið, varst mikill prakkari og þú kallaðir alltaf fram bros á vörum mínum. Þér fannst súkkulaðimolinn góður og varst algjör nautnaseggur og oftar en ekki speglaðist það í kaffiboðum hjá þér. Þegar þú bakaðir flatbrauð var sko engin lognmolla í kringum þig, þú söngst og trallaðir og varst oft með sígó í munnvikinu og dillaðir löppunum í takt við tónlistina. Þú varst mikið fyrir tónlist og byrjaðir snemma að spila og syngja fyrir aðra og það gerðirðu líka síðast þegar ég hitti þig. Þú söngst fyrir mig og mér leið eins og lítilli stelpu á ný. Heilsan og minnið hafði nefnilega gefið sig síðustu ár og það var voðalega sárt að sjá á eftir öllum sögunum sem þú mundir og bröndurunum. Síðast en ekki síst var erfitt að sjá þig ekki í þínu rétta umhverfi, í horninu inni í eldhúsi með sígó eða tvær í hönd hendandi mjólkurfernum í vaskann og oftar en ekki hittirðu. Þú varst alltaf svo vel til höfð og fín og varst í raun alveg jafn mikil dama og þú varst prakkari. Ég man eftir öllum varalitunum, kjólunum og höttunum sem ég fékk að máta sem lítil stelpa. Þannig er mín minning um þig og sú minning kallar fram ást, gleði og söknuð. Æji amma mín, þú varst svo ólýsanlega skrautlegur persónuleiki en það vita þeir sem þekktu þig best. Þú gafst mikið af þér, varst mikil barnagæla og við sem eftir stöndum erum svo miklu fátækari eftir að hafa misst þig og þitt skarð verður aldrei fyllt. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kveðja þig og mikið var gott að strjúka ennið þitt og kinn þegar við sáumst í hinsta sinn.

Elsku amma mín ég elska þig og mun aldrei gleyma þér. Ég vona að þú syngir og trallir mikið á himnum með alla þína nánustu þér við hlið og ég vona að þú vitir hvað okkur þótti öllum vænt um þig.

Þín ömmustelpa Kristín Sigurðardóttir.

Svo er hér eitt alveg hrikalega fallegt ljóð sem mig langar að láta fylgja með.

Á þriðjung ævi þinnar hef ég séð
hvað þróttur mikill býr í huga þínum
sem örugglega ýmsum þáttum réð
um allt það besta er lenti í höndum mínum.
Ef stillast vegir, veröld mín og geð
þá varkár hönd þín vakir yfir sýnum;
Þó fjarlægð sýnist fylla heima mína
er fjarska gott að finna um hlýju þína.

Hljóðlega fór heilmikið á blað
af heilræðum sem frá þér voru valin.
Þau standa mörg sem mér fannst best við hlað
á mörgum slíkum var ég eitt sinn alinn.
Ef lítil þokuslæða læðist að
sem leggur sig svo hlýlega um dalinn
þá gleymast hvorki gullkorn þín né mildi
þau gefa lífi mínu aukið gildi.

Hallgrímur Óskarsson1967-

Falleg athöfn

Jæja, þá er jarðarförin afstaðin og allir aðeins að skríða saman aftur. Kistulagningin var falleg og róleg. Séra Solveig er með svo ótrúlega róandi rödd og rólegt geð að það hjálpaði okkur hinum. Athöfnin fór fram í Möðruvallakirkju og var virkilega fín, Solveig var með góðan pistil um ömmu og í honum voru bæði broslegir hlutir og sorglegir. Kirkjukórinn söng í bljúgri bæn og hærra minn Guð til þín og það var virkilega vel heppnað hjá þeim. Ég man ekki eftir kórnum svona góðum áður. Amma kenndi mér einmitt í bljúgri bæn og við sungum það oft saman svo mér þótti vænt um að það skyldi fá að hljóma. Rósin fékk að hljóma í einsöng Óskars Péturssonar og líka nú andar suðrið. Hið klassíska blessuð sértu sveitin mín fékk líka að njóta sín og þetta var sennilega alveg eins og amma hefði viljað hafa það. Fullt af söng, grátri og hlátri og alveg stappað af fólki. Amma var nú alveg hrikalega félagslynd kona og hafði örugglega gaman að þessu öllu saman. Það voru ofsalega fallegar minningargreinar um hana ömmu og allar fönguðu þær persónuleika hennar vel. Amma mín er semsagt farin frá okkur endanlega en mér finnst huggun í því að ég geti þó heimsótt leiðið hennar, því hin amma og afi eru jörðuð í Hafnarfirði. :O)
Ég segi bara enn og aftur amma mín, hvíldu í friði, það er örugglega miklu fjörugra á himnum eftir að þú fórst þangað.
:O)

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Hvíldu í friði elsku amma mín



Með tárin í augunum segi ég amma mín að ég elska þig og þín verður sárt saknað....

Þú varst sannarlega engill í dulargervi..

Þín Kristín.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Að eiga ekki ömmu!

Já, ég verð bara að segja það að lífið er ekki alltaf gott. Amma mín hún elsku Lulla (frá Hjalteyri) er orðin mjög veik og það lítur út fyrir að það styttist í að við fáum ekki lengur að njóta nærveru hennar hér á jörðinni. :(

Amma var alltaf sú sem mundi allt, gat allt og vissi allt! Og ef hún vissi það ekki kom hún samt með svar. Amma söng, fíflaðist, prumpaði og kallaði alltaf fram bros á vörum mínum. En það var á meðan hún hafði heilsuna. Síðustu árin og reyndar kannski aðeins fyrr fór hún að hætta að muna, þekkja og vita hver hún var í raun. Elsku amma mín talaði alltaf um að fara heim en í raun vissi hún ekki hvert heim var. Það er búið að vera erfitt að horfa upp á þetta ferli allt saman og ekki síst þar sem ég eyddi mestri barnæsku minni í hennar umsjá. Þá bökuðum við flatbrauð, kökur og gerðum graut. Ég fékk að skoða fötin hennar, leika mér með hattana hennar og það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom til hennar var að setja litlu styttuna á snyrtiborðinu hennar saman. Hún hafði nefnilega brotnað einu sinni og ekki hafði neinn komið því í verk að laga hana. Mikið þótti mér vænt um að geta gert þetta fyrir hana ömmu mína. En nú get ég ekkert gert fyrir hana, hún liggur bara brotin, lítil og aum uppi í rúmi og bíður örlaga sinna.
:O(
Ég get ekki líst því hvað mér þótti sárt í gær þegar ég fór til hennar, að sjá hana liggja þarna eina og enginn hjá henni. Enginn hélt í höndina á henni og enginn söng fyrir hana, en það var það sem hún gerði alltaf fyrir mig! Ég strauk henni og hún horfði á mig, ég kyssti hana og strauk, hélt í höndina á henni og talaði við hana. Hún reyndi svo greinilega að bregðast við en það eina sem hún gat gert var að raula lítið lag sem hljómaði líkt og bernskusöngur. Hún elsku amma mín er því sennilega að yfirgefa þennan heim og það er alveg jafn sárt og í gær þegar ég fór í raun til að kveðja hana. Ég þoli ekki þá staðreynd að ég hef þá misst 2 ömmur á 15 mánuðum!! Það er heldur ekki sanngjarnt að ömmur mínar hafi farið á svona langan, erfiðan hátt. Þá hefur sennilega verið illskárra að hann afi minn fékk að losna undan kvöð síns sjúkdóms fljótt og án sársauka árið 2000, degi eftir að ég ól yngri son minn.
Þegar hún amma mín kveður þennan heim á ég enga ömmu og ömmur mínar voru og eru sko engar smá manneskjur, ég er ekki viss að ég hafi fyrr eða muni seinna fyrirhitta aðrar eins manneskjur. Hann afi minn var líka svona stór persóna, ég sakna ömmu og afa og mun sakna þessarar ömmu minnar alveg hrikalega sárt líka.
En ef það er eitthvað sem maður lærir af þessari reynslu þá er það það að lifa lífinu á meðan við höfum tækifæri til og að bera virðingu fyrir ÖLLU lífi óháð í hvaða mynd eða ástandi það er.
En á meðan hún amma er hér á jörðinni vona ég að hún haldi áfram að syngja og ég vona að þegar hún ákveður að fara til allra á himnum muni hún geta sungið, dansað og fíflast eins og hún gerði á meðan hún lifði.
Kv. Stína sem er einhvernvegin sár.....

föstudagur, október 27, 2006

Alltaf gott að læra eitthvað nýtt

Já, stelpur, það er engu líkara en að hér sitji ný manneskja!
Þannig er mál með vexti að ég held að ég hafi frelsast, fengið vitrun eða hvað þið viljið kalla það.
Ég fór nefnilega á opið hús í morgun á Hólmasól sem er nýr leikskóli hér í bæ.
Áður en ég fór hafði ég alveg áhuga á hjallastefnunni og fannst spennandi að kynna mér hana en þegar ég var búin að standa þarna í hálftíma og varð vitni að söngfundi var ég algjörlega sannfærð um að þetta væri málið!
Ég hef aldrei fengið svona tilfinningu áður, verð bara að segja vá!! Ég keypti þessa stefnu og þetta starf algjörlega af heilum hug og stóð í raun bara agndofa og horfði á þessa frábæru enstaklinga, bæði börn og starfsfólk og það eina sem ég hugsaði með mér var: af hverju var ekki svona leikskóli þegar strákarnir voru yngri? Þarna sátu börnin og sungu um vináttuna, fengu að njóta sín einstaklingslega og sungu lög með texta sem skipti máli! Lög Jóhannesar úr Kötlum í staðinn fyrir Í leikskóla er gaman! Aðspurð um þennan mun svaraði Magga Pála að láta börnin syngja það síðarnefnda væri bara morð og að börn væru engin hálfvitar heldur fyllilega viti bornir einstaklingar sem væru bara mjög gáfaðir. Frábært!
Hjallastefnan virkar á mig eins og hún sé það eina rétta, það rétta og hreina í samfélagi sem er það kannski ekki. Það er unnið af heilum hug með hana og allir eru frábærir! Sjálfsstyrking á sér stað öllum stundum og einstaklingarnir viðurkenndir sem hugsandi, gáfaðir og yndislegir, hvort sem um ræðir stelpur eða stráka. Magga Pála benti okkur til dæmis á að strákar á Hjallastefnuskólum væru duglegri í söng en ef kynjablandað væri og stelpurnar þornari og ófeimnari. Þetta var sýnilegt á fundinum í morgun. Þarna leiddust kynin niður tröppurnar, tvö og tvö í einu og báru virðingu hvort fyrir öðru. Þau sýndu virðingu með því að horfast í augu og viðurkenndu tilvist hvors annars á annan hátt en áður. Þetta er alveg málið og svei mér bara ef ég er ekki orðin bara frelsuð. Í það minnsta bauð Magga okkur að mæta í vettvangsnám og bauð okkur bara velkomnar og mér finnst ekki spurning um að hreinlega bara taka því!! Og ég get ekki sagt annað en að ég sé yfir mig spennt yfir því. Ég vona bara að fleiri en ég geti upplifað svona fund því ég held að enginn manneskja efist um ágæti þessarar stefnu eftir slíkt og þvílíkt.
Takk fyrir. Törner Hjalli.